I Adapt er ein þrettán hljómsveita sem troða upp í Egilsbúð.

I Adapt er ein þrettán hljómsveita sem troða upp í Egilsbúð. — Mynd. Morgunblaðið/Svavar

Eftir Höskuld Ólafsson hoskuldur@mbl.is

Nú á laugardaginn verður haldin heljarinnar þungarokkshátíð sem ber yfirskriftina Eistnaflug 2005 – Metalfest. Hátíðin fer fram í Egilsbúð í Neskaupstað þar sem hvorki fleiri né færri en þrettán þungarokkshljómsveitir hyggjast troða upp, rokkþyrstum Austfirðingum til mikillar gleði.

Stefán Magnússon heitir maðurinn sem stendur fyrir þessari hátíð og spurður um tilefnið segist hann einfaldlega vera að standa við gefið loforð.

“Ég var sjálfur á sínum tíma í hljómsveit sem hét Dys með Sigga pönk-hjúkku og fleirum.
Þegar við hjónin ákváðum svo að flytja til Neskaupstaðar, hún að hjúkkast og ég í íþróttakennslu,
gaf ég vinum mínum loforð um að halda svona hátíð innan tíðar.”

Stefán segist finna fyrir nokkrum spenningi á meðal heimamanna en skiljanlega séu það unglingarnir
sem hlakka hvað mest til, enda er hann í mestum samskiptum við þá í Nesskóla þar sem hann kennir.

“Þetta hefur aldrei verið gert áður svo að við rennum blint í sjóinn með aðsóknina. Ég hef samt staðið í mikilli markaðsstarfsemi og auglýst þetta um alla firði og notað ferðalög vina og vandamanna til að breiða út boðskapinn. Dagskráin hefst um tvöleytið og lýkur síðan einhvern tímann eftir kvöldmat og það er að sjálfsögðu ekkert aldurstakmark. Það má eiginlega segja að þetta sé fjölskylduhátíð. Hafi töluvert uppeldisgildi jafnvel.
Eyrnaskjólum verður dreift og svo verður bara djöflast.”

Stefán segir að hann hafi engar áhyggjur af því að yfirskrift hátíðarinnar fari fyrir brjóstið á aðstandendum Neistaflugsins.

“Nei, ég held að allir hafi húmor fyrir þessu og satt að segja hefði hún eiginlega ekki getað heitið neitt annað.”

En munu eistu fá að fljúga?

“Ég ætla að vona ekki, kannski að þau hristist bara.”