Hemúllinn [IS]

https://www.facebook.com/hemullinn/

 @hemullinn

arnarsjonsson [at] gmail.com

Tegund tónlistar

Elektrónískt, pólitískt, aggressíft og hressilegt pönk!

 

Saga

Fyrstu drög að Hemúlnum voru lögð í febrúarmánuði 2001, fyrst og fremst til að sporna gegn þunglyndistilhneigingu eiganda hans.
Opinber fæðingardagur er fimmtudagskvöldið 22. mars 2001, en þá spilaði Hemúllinn opinberlega í fyrsta sinn..

Tónleikahald var síðan afar stopult í mörg ár. Í tæp tíu ár, frá ágúst 2003 til apríl 2013, kom Hemúllinn fram níu sinnum og spilaði aldrei meira en fimm lög í einu.
Úr þessu hefur þó verið bætt svo um munar hin síðari ár. Harpa Hlín Haraldsdóttir var í bandinu árin 2001-2003.
Lítið sex laga demó var gefið út í tíu eintökum síðla árs 2001.
Annað efni hefur ekki verið tekið upp eða gefið út.

Lög Hemúlsins voru lengi vel slegin inn í tablature forritið GuitarPro 3 og sándið fullkomnað með ævafornri tölvu með stýrikerfinu Windows NT.
Hemúllinn uppfærði öll lög sín árið 2014 og pönkast nú í GuitarPro 5 í gegnum stýrikerfið Windows 7.

Tónlist Hemúlsins hefur þróast talsvert í gegnum tíðina. Fyrstu lögin voru 3-4 mínútur og mun poppskotnari en þau eru í dag.
Textarnir voru angurværari og yrkisefnin voru m.a. viðtal við Jesú Krist og vangaveltur um örlög persónanna í kvikmyndinni Blair Witch Project.
Hljómsveitin hefur orðið reiðari með árunum, lögin styttri og textarnir aggressífari.
Eldri lögum hefur verið samhliða því verið kippt út af prógramminu og munu ekki eiga afturkvæmt þangað í bráð.

Tónleikalisti

2001
Fimtudagur 22. mars – Músíktilraunir í Tónabæ
(Fyrsta giggið. Fullur salur, frábærar móttökur, hlýleg rýni spekinga og Hemúllinn komst alls ekki áfram).

Laugardagur 11. ágúst – Galdrastef á Ströndum
(Hemúllinn og Harpa komu fram í fyrsta sinn og hituðu upp fyrir Kvennakórinn Norðurljós. Fullt af fólki á útitónleikum í Bjarnarfirði.
Henti tölvuskjá af sviðinu í síðasta laginu).

2002
Fimmtudagur 7. mars – Músíktilraunir í Tónabæ (Hemúllinn og Harpa komu fram undir nafninu Heilaskaði í fyrsta og síðasta sinn.
Performansinn uppskar gagnrýnina “Heilaskaði var heilaskaði”).
Laugardagur 4. maí – Grand Rokk (Hemúllinn og Harpa.
Einnig spiluðu Whool og Whole Orange.
Yfirskrift tónleikanna var „Kisi er dáinn“ og í markaðssetningu var sagt að „rassaríðingar og almennur dónaskapur“ einkenndi tónlist Hemúlsins.
Mæting var arfaslök og Hemúllinn orðinn nokkuð drukkinn í lok prógramms).
Sunnudagur 5. maí – (Hemúllinn og Harpa. Vestfjarðakynning í Perlunni. Þrjú lög tekin fyrir nokkur hundruð manns í gegnum húskerfið).

2003
Fimmtudagur 14. ágúst 2003 – Café Riis (Hemúllinn og Harpa.
Rennt í gegnum allt prógrammið. Lögin Heather Donahue, Bakkar og berg, Afturgönguvalsinn og nokkur önnur hafa aldrei verið spiluð síðan á þessum tónleikum).

2005
Laugardagur 7. maí – Galdrasýning á Ströndum (Spilaði tvö lög.
Man ekki hvaða viðburður þetta var og er ekki viss um að dagsetningin sé rétt, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var alla vega á tónleikunum.
Hemúlstölvan var biluð og lögin því leikin af kassettu. Lagið Galdrastafur spilað í fyrsta og síðasta skipti).

2005-2012
Hamingjutónar á Hólmavík (Sjö tónleikar á árunum 2005-12, hluti af útiskemmtun á bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík Yfirleitt alltaf sömu 3-4 lögin við góðar undirtektir).

2012
Laugardagur 14. júlí – Brúðkaup í Trékyllisvík (Hemúllinn renndi í tvö lög í lok eins af brúðkaupum aldarinnar – Einkennisbúninga og Upp með Jesú.
Brúðguminn missti sig fullkomlega og Hemúllinn fékk endurnýjaða trú á ágæti sínu).