Hvað í fjandanum er Eistnaflug?

Eistnaflug er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan sumarið 2005.
Þetta er innihátíð í Neskaupstað, vinalegum litlum bæ á Austfjörðum, sirka jafn langt frá Reykjavík og hægt er að komast án þess að fara úr landi.
Aðra helgina í júlí tvöfaldast íbúafjöldi Neskaupstaðar þegar tónlistaraðdáendur hópast til Norðfjarðar að njóta lifandi tónlistar við bestu hugsanlegu aðstæður.

Síðan 2005 hefur hátíðinni vaxið fiskur um hrygg og er orðinn að fjögurra daga tónlistarhátíð, þar sem metal-, harðkjarna-, pönk-, rokk- og indí-bönd deila saman sviði.

Sumarið 2015 var hátíðin tekin upp á næsta stig þegar hún var flutt úr Egilsbúð yfir í íþróttahús staðarins.

Eistnaflug er einstakur tónlistarsuðupottur, með nokkrum sérvöldum erlendum böndum sem
spila ásamt gífurlegu úrvali alls þess besta sem íslenska senan hefur upp á að bjóða á hverju ári.

Á meðal þeirra erlendu hljómsveita sem hafa spilað á Fluginu eru:
Behemoth (PL), Enslaved (NO), Carcass (UK), At the Gates (SE), Havok (US), Triptykon (CH), Napalm Death (UK),
Secrets of the Moon (DE), Rotting Christ (GR), The Monolith Deathcult (NL) Contradiction (DE) og Cephalic Carnage (US).

Íslenskar hljómsveitir sem spilað hafa eru mýmargar, en nefna má Sólstafi, Skálmöld, Misþyrmingu,
Momentum, Vintage Caravan, FM Belfast, Kæluna miklu og Pink Street Boys sem dæmi.

Hverju Eistnaflugi er svo lokað með heljarinnar partý þar sem DJ Töfri spilar danstónlist af alkunnri snilld.

Í ár verður Eistnaflug í íþróttahúsinu.

ALDURSTAKMARK Á HÁTÍÐINA ER 18 ÁRA OG ÞAÐ ER AFMÆLISDAGURINN SEM GILDIR.